Hreint, þrifa- og ræstingafyrirtæki, hélt nýverið sitt árlega golfmót á Urriðavelli, en mótið hefur verið haldið með góðum árangri í 15 ár. Fastur liður í mótinu er að sigurvegarinn velji sér góðgerðarmálefni sem fær aðalverðlaun mótsins, sem í ár námu 150.000 krónum.
Að þessu sinni stóð Gunnar Egill Sigurðsson uppi sem sigurvegari keppninnar. Hann tók þá ákvörðun að styrktarféð skyldi renna óskipt til Minningarsjóðs Bryndísar Klöru. Sjóðurinn var stofnaður til að heiðra minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur og vinnur markvisst að því að styðja verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samkennd í samfélaginu.
Styrkurinn var formlega afhentur af Ara Þórðarsyni, framkvæmdastjóra Hreint, og Gunnari Agli, til Guðrúnar Ingu Sívertsen, formanns Minningarsjóðsins. Fulltrúar Hreint lögðu áherslu á að styrkveitingin væri hluti af samfélagsábyrgð fyrirtækisins og vilji til að stuðla að góðu málefni sem snertir samfélagið djúpt.