Minningarsjóður Bryndísar Klöru og Riddarar kærleikans hafa lokið umfangsmikilli fjársöfnun í samstarfi við Ölgerðina og fjölmarga samstarfsaðila. Í dag afhenti Ölgerðin sjóðnum 15 milljónir króna sem söfnuðust við sölu á Kærleiks Kristal. Upphæðin mun renna óskert til uppbyggingar Bryndísarhlíðar, nýs úrræðis sem ætlað er börnum og unglingum sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Salan á Kærleiks Kristal fór fram úr björtustu vonum og sýnir þann mikla einhug sem ríkir um mikilvægi Bryndísarhlíðar.

Söfnunin var hluti af kærleiksherferð Riddara kærleikans sem snýr að því að efla samkennd og minnka ofbeldi í samfélaginu. Fjöldi fyrirtækja tók þátt í verkefninu. Meðal þeirra eru Krónan, Bónus, Hagkaup, Samkaup, Nettó og N1, en þau gáfu öll sinn ágóða af sölu vörunnar beint til sjóðsins. Einnig studdi Bílaumboðið Askja kærleikshringferð tveggja kærleiksriddara um landið. Samstaða þessara fyrirtækja var ómetanlegur stuðningur við átakið.

Bryndísarhlíð verður sérhæft úrræði sem býður upp á þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Minningarsjóðurinn vinnur að því að safna fyrir húsnæði undir starfsemina en ríkissjóður mun taka við rekstrinum til framtíðar. Þessi árangursríka söfnun er mikilvægt skref í átt að öryggi barna og ungmenna um ókomin ár.

No items found.