Forseti Íslands og verndari Minningarsjóðs Bryndísar Klöru, Frú Halla Tómasdóttir tók við tæpum 9 milljónum króna sem söfnuðust á dögunum fyrir minningarsjóð Bryndísar Klöru í september 2024.
Annars vegar var um að ræða söfnun frá árlegu góðgerðarhlaupi Salaskóla, sem er hluti af Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Salaskóli hefur undanfarin ár haldið úti góðgerðarhlaupinu og styrkt ýmis málefni. Kristín Sigurðardóttur, skólastjóri Salaskóla, segir að söfnunin hafi aldrei skilað jafnmiklu og þetta árið. Bryndís Klara var nemandi við Salaskóla, hljóp oftsinnis í góðgerðarhlaupinu og útskrifaðist frá Salaskóla í maí 2023. Nemendur voru hvattir til að klæðast bleiku í hlaupinu. Alls söfnuðust um 1.450 þúsund krónur í góðgerðarhlaupinu.
Hins vegar voru afhentar tæpar 7 milljónir króna vegna kertasölu sem fram fór í stórmörkuðum Bónus, Hagkaupa, Krónunnar, Nettó og Samkaupa í aðdraganda útfarar Bryndísar Klöru þann 13. september. Anna Björt Sigurðardóttir hafði frumkvæði að kertasölunni og fékk verslanirnar til liðs við sig.
„Ég er svo innilega þakklát öllum sem tóku þátt í að styrkja minningarsjóð Bryndísar Klöru með kaupum á kertum. Enn og aftur sýnum við sem þjóð að með samkennd og náungakærleik að allt er hægt,“ sagði Anna Björt í tilkynningu þegar hún var viðstödd afhendingu söfnunarinnar í höfuðstöðvum KPMG sem heldur utan um endurskoðun sjóðsins.